Evrópski seðlabankinn og Englandsbanki ákváðu báðir að halda stýrivöxtum óbreyttum í gær.

Ákvörðunin kom ekki á óvart þar sem verðbólga á evrusvæðinu og Bretlandi mælist yfir markmiðum beggja bankanna. Stýrivextir á evrusvæðinu eru 4% á meðan þeir eru 5% á Bretlandi. Verðbólga á evrusvæðinu mældist 3,6% í maí og um 3% í Bretlandi.

Ljóst er að forráðamönnum beggja bankanna er nokkur vandi á höndum við mótun peningamálastefnunnar þar sem verðbólguþrýstingur vex á sama tíma og teikn eru á lofti um niðursveiflu.

Málið er reyndar öllu flóknara fyrir Evrópska seðlabankann þar sem enn er mikill kraftur í stærsta hagkerfi evrusvæðisins – því þýska – á meðan blikur eru á lofti í ríkjum á borð við Írland, Spán og Ítalíu.

Væntingarnar hræða

Í fljóti bragði virðist ástandið í breska hagkerfinu kalla á lækkun stýrivaxta. Fasteignaverð hefur ekki lækkað hraðar í fimmtán ár eftir að hafa þrefaldast á tíu árum. Það er haldbær vísbending um að eignabóla hafi sprungið. Neikvæð auðhrif (e. wealth effect) þeirrar þróunar á heildareftirspurn kunna að verða töluverð og á sama tíma sýna hagtölur samdrátt í þjónustugeiranum, en hann stendur undir 75% hagkerfisins.

Á sama tíma ógnar verðbólguþrýstingur stöðugleikanum og ljóst er að forráðamenn bankans óttast fátt frekar en að breyting verði á verðbólguvæntingum almennings.