Seðlabankar á Norðurlöndunum hafa ekkert samkomulag gert sem felur það í sér að bjarga hvor öðrum. Þetta er haft eftir Matthias Persson, yfirmanni efnahagsdeildar sænska Seðlabankans, Rikisbank á fréttavef Bloomberg .

Hann hafnar öllum hugmyndum um að bankinn muni útvega lausafé til íslenskra banka komi upp fjármálakrísa hér á landi.

Persson segir að hins vegar sé mikil samvinna milli bankanna sem feli meðal annars í sér að þeir miðli upplýsingum en ekkert samkomulag sé um lánakjör eða lánveitingar milli seðlabankanna.

Bloomberg greinir frá því að Geir H. Haarde, forsætisráðherra hafi þann 28. mars síðastliðinn lýst því yfir að Seðlabanki Íslands „gæti aðstoðað“ íslensku bankana í lausafjárkrísu og myndi hugsanlega fá til þess aðstoð frá þeim löndum þar sem bankarnir reka starfssemi sína. Í frétt Bloomberg er minnst á Kaupþing og Glitni í þessu samhengi.

Bæði Seðlabankar Finnlands og eins hinn sænski Rikisbank hafna því að bankarnir hafi skuldbundið sig til að bjarga lánafyrirtæki á Íslandi og bætast þar í hóp annarra seðlabanka á Norðurlöndum en eins og vb.is greindi frá fyrr í morgun hafa sömu skilaboð komið frá danska Seðlabankanum, Nationalbanken.