Hagfræðingar segja að skilaboðin sem hafi borist frá helstu seðlabönkum beggja vegna Atlantsála í þessari viku, gefi til kynna að einhver bið verði á því þangað til vextir verði lækkaðir á ný. Framvirkir samningar sýna einnig að fjárfestar eru í auknum mæli farnir að veðja á að bankarnir kúvendi stefnu sinni og fari að hækka vexti á ný, að því er Bloomberg-fréttaveitan greinir frá.

Helstu forsvarsmenn bandaríska seðlabankans vöruðu í vikunni við þeirri verðbólguhættu sem bandaríska hagkerfið stæði frammi fyrir í kjölfar róttækra stýrivaxtalækkana bankans frá því í september. Stýrivextir hafa sjö sinnum verið lækkaðir – úr 5,25% í 2% - á aðeins átta mánuðum.

King hvetur til þolinmæði

Sambærilegar áhyggjur heyrast úr ranni Englandsbanka, sem hefur lækkað vexti í þrígang um 25 punkta frá því í desember – úr 5,75% í 5%. Vaxandi verðbólga virðist nú hins vegar koma í veg fyrir að bankinn geti haldið áfram á sömu braut.

Mervyn King, seðlabankastjóri, kynnti í vikunni ársfjórðungslega verðbólgukýrslu bankans þar sem fram kemur að verðbólga muni fara upp fyrir 3% og líklega haldast þar til skemmri tíma – að minnsta kosti út þetta ár. Verulegar líkur eru jafnframt taldar á því að verðbólgan fari tímabundið yfir 4%. King segir að Englandsbanki verði að sýna “þolinmæði” þegar kemur að því verkefni að kveða niður verðbólgudrauginn.

Evrópski seðlabankinn hefur á hinn bóginn ekki farið sömu leið og Englandsbanki og Seðlabanki Bandaríkjanna. Jean-claude Trichet, seðlabankastjóri, hefur setið fast við sinn keip og haldið stýrivöxtum óbreyttum í 4% - ellefu mánuði í röð.

Mesta verðbólguaukning í níu ár

Nýjar hagtölur sem bárust frá Þýskalandi og Frakklandi í gær – hagvöxtur jókst um 1,5% og 0,6% á fyrstu þremur mánuðum ársins – munu aðeins styrkja seðlabankann í skoðun sinni um að rétt hafi verið að halda vöxtum óbreyttum. Sumir hagfræðingar telja jafnvel að líklegra sé að bankinn ráðist í vaxtahækkun á þessu ári, fremur en vaxtalækkun.

Thomas Mayer, aðalhagfræðingur Detsche Bank í London, segir að bið verði á því þangað til Englandsbanki og bandaríski seðlabankinn lækki vexti á ný. Hann bendir einnig á að fjárfestar hafi litlar sem engar væntingar um að Evrópski seðlabankinn lækki hjá sér vexti – en þangað til fyrir skömmu var talið líklegt að vextir yrðu lækkaðir í haust.

Hagfræðingar segja að seðlabankarnir geti ekki lengur einblínt á þær hættur sem gætu hlotist af lánsfjárkreppunni á fjármálamörkuðum fyrir raunhagkerfið – hækkandi hrávöruverð á mörkuðum hafi nú tekið við sem helsta hættan sem seðlabankarnir standa frammi fyrir.

Varnarorð Volcker

Bandaríski fjárfestingabankinn Citigroup spáir því að verðbólga í alþjóðahagkerfinu muni aukast úr 3,4% á þessu ári í 4,7% á þessu ári – sem er mesta aukning á milli ára frá því 1999.

Sumir fjárfestar eru farnir að veðja á að bandaríski seðlabankinn breyti vaxtastefnu sinni síðar á árinu. Framvirkir samningar gefa til kynna að 22% líkur eru á því að seðlabankinn hækki vexti í 2,25% næstkomandi september. Fyrir aðeins vikur voru líkurnar 7%.

Paul Volcker, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði í vikunni að aðstæður í dag væru að sumu leyti sambærilegar þeim sem uppi voru þegar hann tók við embætti árið 1979. Hann varaði við því að seðlabankar myndu endurtaka þau mistök sem hefðu verið gerð við stjórnun peningamála í byrjun áttunda áratugarins, en peningamálayfirvöld voru þá of sein að grípa til aðgerða til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu.