Margir af stærstu seðlabönkum heims tóku í dag höndum saman um að dæla milljörðum Bandaríkjadala á helstu fjármálamarkaði heims.

Tilgangur þessa er að sögn Reuters fréttastofunnar að auka lausafé í umferð og koma í veg fyrir frekari hrun fjármálastofnana.

Viðmælendur bæði Reuters og Bloomberg fréttaveitunnar eru sammála um að þetta sé jákvætt skref og muni hugsanlega stytta eða jafnvel binda endi á lausafjárkrísuna í heiminum.

„Það má samt ekki gleyma því að menn eru búnir að fara ógætilega með fjármagn og markaðurinn er einfaldlega að refsa fyrir það,“ sagði þó einn viðmælandi Bloomberg sem vildi ekki láta nafn síns getins.

Bankarnir sem um ræðir eru meðal annars Seðlabanki Bandaríkjanna, Seðlabanki Evrópu, Kanada, Sviss, Japan og Englandsbanki.

Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki hafa ákveðið að veita hvor um sig um 40 milljörðum dollara. Þá hefur Seðlabanki Bandaríkjanna heimilað 180 milljarða dala lánasamninga við aðra seðlabanka og Seðlabanki Japan hefur þegar tilkynnt að hann muni auka „talsvert“ magn dollara í umferð án þess þó að skilgreina upphæðina frekar að sögn Reuters.