Að sögn Financial Times eru Seðlabankar beggja vegna Atlantshafs, í Bretlandi og Bandaríkjunum, í viðræðum um magnkaup á skuldabréfum til að koma í veg fyrir alþjóðlegt hrun á lánamörkuðum.

Blaðið sagði viðræður vera á byrjunarstigi en að þetta væri liður í því að berjast gegn þeirri ringulreið sem nú ríkir enn á fjármálamörkuðum, þrátt fyrir að bankarnir hafi þegar veitt milljörðum dollara inn á markaðinn og lækkað stýrivexti.

Í þessu fælist að peningar almennings væru notaðir til að koma markaðnum út úr þeim vítahring sem hann er í núna. Til að framkvæma hugmyndina þyrfti því samþykki ríkisstjórnar viðkomandi ríkis. Financial Times segir ekkert benda til þess ennþá að ríkisstjórn Bandaríkjanna myndi styðja við hugmyndina og til að Seðlabanki Evrópu geti tekið þátt í henni þarf samþykki 15 ríkisstjórna.

Englandsbanki er hrifnari af hugmyndinni að sögn Financial Times en Bandaríski Seðlabankinn, sem lítur á þessar aðgerðir sem neyðarúrræði sem ekki er tímabært að nýta strax. Seðlabanka Evrópu líst verst á hugmyndina af þessum þremur bönkum.

Hingað til hafa seðlabankarnir viljað lána gegn skuldabréfaveði frekar en að kaupa bréfin beint. Skuldabréfin hafa hins vegar lækkað mikið í verði og leitt til þess að bankar hafa neyðst til að selja þau og tapað þannig peningum.

Bankar hafa afskrifað meira en 125 milljarða dollara af eignum síðan í nóvember. DJ Stoxx vísitalan, sem er vísitala fyrir evrópska banka, hefur fallið um næstum 40% síðan í júní.