Seðlabankar beggja vegna Atlantsála, auk þess japanska, buðu út skammtímalán í framhaldi af útboðunum á mánudag. Ekki var hægt að greina að aðgerðirnar skiluðu árangri í að aflétta hinni miklu streitu sem nú ríkir á fjármálamörkuðum. Evrópski seðlabankinn gaf út 70 milljarða evra til sólarhrings en bankinn gaf út 30 milljarða í gær. Mikil umfram eftirspurn var í útboðinu og námu tilboðin samtals 102,48 milljörðum evra. Englandsbanki bauð út 20 milljarða punda til tveggja daga og nam heildarupphæð tilboða ríflega 58 milljörðum punda. Svissneski seðlabankinn bætti við þá upphæð sem var boðin út í endurhverfum verðbréfaviðskiptum á mánudag.

Markaðir opnuðu að nýju í Japan í gær, en almennur frídagur var í landinu á mánudag. Seðlabanki landsins dældi út 24 milljörðum Bandaríkjadala inn á millibankamarkaðinn til þess að liðka fyrir viðskiptum. Jafnframt bauð seðlabankinn í New York-ríki út 50 milljarða dala. Umframeftirspurnin sýnir glögglega hversu mikil streita er á fjármálamörkuðum og endurspeglast hún meðal annars í þróuninni á millibankamörkuðum og verðbréfamörkuðum. Gengi hlutabréfa féll víða um heim og einkenndust markaðir af flótta fjárfesta frá fjármálafyrirtækjunum. Enda er það kannski ekki að furða miðað við fréttir af slæmri stöðu þeirra. Í gær var bandaríski tryggingarisinn AIG enn í brennidepli fjárfesta.

Gengi hlutabréfa AIG féll um þrjá fjórðu hluta við upphaf viðskipta í gær en þá var staðfest að hið aðþrengda fyrirtæki hefði aðeins einn dag til þess að tryggja endurfjármögnun. Takist það ekki verður það neytt í þrot. Ljóst er að slík örlög verða ekki til þess að lægja öldurnar á fjármálamörkuðum. Hermt er að fjárfestingarbankarnir Goldman Sachs og JP Morgan séu fyrir tilstilli bandaríska seðlabankans að reyna að safna 75 milljarða dala lánsfé til þess að bjarga AIG en einnig er uppi orðrómur um að reynt verði að endurfjármagna það gegnum eignasölu eða með því að brjóta upp reksturinn.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .