Geir H. Haarde, forsætisráðherra kallaði bankastjóra Seðlabanka Íslands, þá Davíð Oddsson, Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson á fund sinn í stjórnarráðinu í dag til að fara yfir stöðuna í efnahagsmálum.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins en það var fyrir tilviljun eina, að sögn RÚV, að fréttamenn sáu seðlabankastjórana þrjá ganga út úr stjórnarráðinu fyrir klukkan 18 í kvöld.

Geir sagði í viðtali við RÚV að ekki væri hér um krísufund að ræða, slíkir fundir væru haldnir reglulega og því engin tíðindi fólgin í því að forsætisráðherra hitti seðlabankastjóra. Ástæðan fyrir því að slíkur fundur væri haldinn á laugardegi væri einfaldlega sú að hann hefði sjálfur verið upptekinn stóran part vikunnar en Geir kom heim í morgun frá Bandaríkjunum.

Seðlabanki Íslands hefur sætt gagnrýni síðustu daga en eins og fram hefur komið gerði bandaríski Seðlabankinn lánasamninga við seðlabankana í Noregi, Danmörku og Svíþjóð auk Ástralíu í vikunni. Hefur það vakið furðu bæði greiningardeilda bankanna, aðila úr forystu verkalýðshreyfingarinnar og öðrum að ekki hafi verið gerður slíkur samningur við Seðlabanka Íslands.

Geir sagði, aðspurður um þetta að hann hefði litlu við að bæta fyrir utan það sem þegar hefði komið fram hjá Seðlabankanum en sagði þó:

„Það virðist vera sá misskilningur í gangi hér heima að Seðlabanki Bandaríkjanna sé eins og einhver kjörbúð sem allir geta farið í og valið sér í körfuna. Auðvitað er það ekki þannig,“ sagði Geir við fjölmiðla og bætti því við að svo virtist sem margir sem tjáðu sig um málið hefðu ekki kynnt sér það almennilega.

Fundinn sátu einnig þeir Bolli Bollason, ráðuneytisstjóri og Tryggvi Þór Herbertsson, ráðgjafi forsætisráðherra auk fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu.