Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir erfitt að leggja mat á helstu áhættuþætti í íslenska fjármálakerfinu um þessar mundir. Ástæðan er óvissan sem enn ríkir um eignir, fjármögnun og eignarhald fjármálafyrirtækja á Íslandi.

„Þeir eru þó augljóslega einkum tengdir gæðum eigna þeirra sem og gjaldeyris- og verðtryggingarójafnvægi. Meðal annars af þessum sökum er mikilvægt að eiginfjárhlutföll fjármálastofnana verði á næstunni vel yfir lögbundnum mörkum,“ sagði Már þegar skýrsla Seðlabankans um Fjármálastöðugleika var kynnt síðdegis í dag.

Seðlabankastjóri sagði að innlán væru uppistaðan í fjármögnun bankanna og aðgengi að erlendum lánamörkuðum takmarkað. Ákveðin áhætta gæti fylgt afnámi gjaldeyrishafta vegna þess að fjármagn yrði kvikara á sama tíma og eignarhald bankanna væri að mótast.

„Þá er ljóst að framundan er endurskipulagning og endurfjármögnun sparisjóðanna sem einnig gæti falið í sér vissa áhættu. Áhættan sem var í íslenska fjármálakerfinu fyrir hrunið er hins vegar komin fram og ólíklegt er að svipuð staða komi upp aftur í bráð,“ sagði Már.