„Það er mitt mat að þetta er mjög mikilvægt skref og ákveðin traustyfirlýsing," sagði Már á fundi með blaðamönnum í morgun þegar hann kynnti gjaldmiðlaskiptasamning milli seðlabanka Íslands og Kína. Hann lagði áherslu á að þetta hefði verið í þó nokkurn tíma í undirbúningi á vettvangi embættis forseta Íslands og forsætisráðherra.

Fyrirkomulagið á þessum gjaldmiðlaskiptasamningum verður þannig að Seðlabanki Kína opnar reikning í Seðlabanka Íslands í krónum og svo öfugt í Kína þar sem Seðlabanki Íslands verður með reikning í júan gjaldmiðli Kína. Í viðskiptum milli landanna verður því hægt að eiga viðskipti með þessar tvær myntir án þess að skipta fyrst yfir í evrur eða dollara. Þó eru slík viðskipti háð samþykki seðlabanka viðkomandi ríkis, sagði Már.