Seðlabankastjóri kannast ekki við deilur á milli sín og eins af forsvarsmönnum hugsanlegra kaupenda Sjóvár. Þetta segir í tilkynningu sem Seðlabankinn sendi fjölmiðlum nú undir kvöld vegna fréttar Stöðvar 2 þann 12. nóvember sl.

Í fréttinni er haft eftir heimildarmanni fréttastofunnar að inn í söluferlið fléttist persónuleg samskipti Heiðars Más og Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Segir að þeim muni hafa lent harkalega saman fyrir nokkrum árum, áður en Már tók við embætti seðlabankastjóra.

Tilkynning Seðlabankans:

„Í kvöldfréttum Stöðvar 2 föstudaginn 12. nóvember sl. komu fram alvarlegar ásakanir og dylgjur varðandi söluferli Sjóvár h.f. Sagt er að inn í söluferli Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og annarra eigenda Sjóvár h.f. fléttist persónulegar deilur seðlabankastjóra og eins af forsvarsmönnum hugsanlegra kaupenda. Seðlabankastjóri kannast ekki við þessar deilur og myndi auk þess aldrei láta ágreining um peningastefnu hafa áhrif á embættisfærslu sína. Fullyrðingar um slíkt fela í sér ærumeiðandi ummæli. Stjórn ESÍ ehf. hefur tekið ákvarðanir varðandi söluferli Sjóvár h.f. og enginn ágreiningur hefur verið á milli hennar og framkvæmdastjóra Sölvhóls, eins og sterklega er gefið í skyn í fréttinni. Dráttur á sölu Sjóvár á sér eðlilegar skýringar sem Seðlabankinn getur ekki tjáð sig um opinberlega að svo stöddu.“