Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að niðurstaðan á sölu danska bankans FIH sé ágæt miðað við aðstæður. Í gær náðist samkomulag við hóp fjárfesta sem samanstendur af dönsku lífeyrissjóðunum ATP og PFA, sænska tryggingafyrirtækinu Folksam og fyrirtækinu CPDyvig. Þeir kaupa nú hlut Seðlabankans í FIH.

Seðlabanki Íslands á veð í 99,89% hlut í FIH. Seðlabankinn tók veðið til tryggingar þrautavaraláni sem Kaupþing fékk hjá Seðlabankanum í október 2008 að fjárhæð 500 millónir evra.

Söluverðið 670 milljónir evra

Söluverðið er samtals um 670 milljónir evra (5 milljarðar danskar krónur, 103 milljarðar íslenskar krónur)

Seðlabankinn mun fá um helming upphæðarinnar staðgreiddan, eða 255 milljónir evra (5 milljarðar danskar krónur, 39 milljarðar íslenskar krónur) auk fjárhæðar sem nemur allt að 3,1 milljarði danskra króna. Sú upphæð verður leiðrétt með tilliti til þess taps sem FIH verður fyrir vegna eigna á efnahagsreikningnum þann 30. júní 2010 þar til 31. desember 2014. Þá kemur mögulegur hagnaður FIH af svonefndum Axcel II sjóði til hækkunar, að því er kemur fram í tilkynningu Seðlabankans.

Ágæt niðurstaða

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að þessi niðurstaða sé ágæt miðað við aðstæður. Seðlabankinn muni strax fá talsverða fjárhæð í erlendum gjaldeyri þegar frágangi viðskiptanna sé lokið auk möguleika á að endurheimta veð sitt að fullu þegar fram líða stundir.