Að mati Svein Harald Øygard, seðlabankastjóra mun endurreisn efnahagslífsins grundvallast á fjórum mikilvægum þáttum: 1) Aðlögun í raunhagkerfinu, 2) peningastefnu sem stuðlar að stöðugleika, 3) styrkingu ríkisfjármála til næstu ára, og 4) endurreisn skilvirks fjármálakerfis.

Þetta kemur fram í grein sem Øygard skrifaði í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir sýn sinni á endurreisn íslensks efnahagslífs eftir þá erfiðleika sem það hefur glímt við að undanförnu.

Øygard segir verðbólguna hafa hjaðnað ört og þá hafi viðsnúningur orðið í utanríkisviðskiptum sem efla muni hagkerfið til framtíðar.

Þá segir hann fyrsta skrefið á vaxtalækkunarferlinu hafa verið stigið 19. mars sl. þegar peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að lækka vexti um eina prósentu.

„Í ljósi mikilla skulda heimila og fyrirtækja, sem eru að hluta verðtryggðar og að hluta gengistryggðar, leggur Seðlabankinn höfuðáherslu á að ná niður verðbólgunni og að tryggja stöðugt gengi krónunnar,“ segir Øygard.

„Nauðsynlegt er að skipulega sé unnið að því að draga úr halla í rekstri ríkissjóðs og ná þar fram afgangi. Á sama hátt verður að vinna samkvæmt áætlun að ýmsum samningum sem varða fjármálageirann, að endurskipulagningu hans og endurfjármögnun, því efnahagslífið þarf nauðsynlega á að halda traustum fjármálastofnunum með góða lausafjárstöðu.“

Øygard segir jákvætt að hér búi ein „vinnufúsasta og verkfærasta þjóð í Evrópu,“ eins og hann orðar það í grein sinni.

„Hún mun njóta þess að búa að góðum fiskimiðum, og fiskveiðar og fiskiðnaður Íslendinga eru í fremstu röð í heiminum. Þá er hér framúrskarandi vettvangur fyrir ferðaiðnað, endurnýjanlega orku og iðnað sem á henni byggist, auk þess sem hagkerfið er mun fjölbreyttara en margir útlendingar gera sér grein fyrir.“

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á vef Seðlabankans.