Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir Seðlabankann ekki í bráðri þörf fyrir gjaldeyri og ekki hafi komið til álita að bankinn kaupi gjaldeyri á markaði. Spurningin sé að eiga gjaldeyrisvarasjóð til að stíga skref í afnám gjaldeyrishafta og eiga fyrir greiðslu lána ríkissjóðs á næsta tveimur árum.

„Hins vegar gæti það farið svo ef við förum í plan-b og höfum ekki lánsfjármögnun þá gætum við þurft að fara að kaupa gjaldeyri. Þá erum við að segja það að plan-b feli í sér lægra gengi, lægri raunlaun, það þarf að koma til aðhaldssamari peningastefna að sumu leyti og aðhaldssamari ríkisfjármálastefna. Það er til að tryggja að við lendum ekki í greiðslufalli.

Ég held að við getum komið í veg fyrir greiðslufall hvort sem við er í leið b eða leið a. En það verður ekki sársaukalaust," sagði Már. Hann sagði vinnu í gangi við að endurmeta fjárþörf ríkissins með tilliti til þess hvað gert var ráð fyrir í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar. Vísbendingar væru um að lánsfjárþörfin hefði minnkað. Það hefði vissulega líka sparað vaxtagreiðslur að lántökunni hefur seinkað.