Ísland hefði lent í meiriháttar fjármálakreppu án efnahagserfiðleikanna í heiminum, sagði Robert Wade, prófessor í stjórnmálahagfræði við London School of Economics, á borgarafundi í Háskólabíói í gær.

Hann sagði enn fremur að víkja þyrfti Seðlabankastjóra úr starfi fyrir alvarlega vanrækslu við skyldustörf. Þá þyrfti forsætisráðherra að biðja þjóðina afsökunar á því áfalli sem landið hefði orðið fyrir í tíð hans ríkisstjórnar.

Wade var einn þeirra sem flutti erindi á borgarafundinum í Háskólabíói í gærkvöld. Fundurinn var vel sóttur og komust færri að en vildu.

Útþenslan keyrð áfram á sviksamlegri starfsemi

Wade sagði í upphafi erindis síns að tvær meginástæður væru fyrir því að Ísland hefði lent í fjármálakreppunni - óháð efnahagserfiðleikum annars staðar.

Í fyrsta lagi hefði sú hugmynd verið brjáluð í upphafi að gera Ísland að alþjóðlegri bankamiðstöð. Bankarnir hefðu verið allt of stórir í litlu hagkerfi, með lítinn gjaldmiðil og óhindrað flæði fjármagns.

Í öðru lagi hefði íslenska hagkerfið verið byggt á fölsku eða ólífvænlegu vaxtarmódeli. „Háir vextir, innflæði fjármagns og ofmetin króna sköpuðu í sameiningu mikla þenslu og í nokkur ár var dásamlegt að búa á Íslandi," sagði hann. Íslendingar hefðu tekið lán líkt og enginn væri morgundagurinn.

Módelið hefði hins vegar verið háð erlendum lánardrottnum og um leið og þeir hættu að lána fór skuldapíramídinn að hrynja. Wade greip til líkingarmáls og sagði: „Ef klæðskerinn minn lánar mér peninga til þess að kaupa af honum jakkaföt held ég áfram að kaupa af honum jakkaföt með peningunum hans. Ég verð mjög glaður í einhvern tíma og vaxandi jakkafatasafn mitt vekur aðdáun vina minna. Vandamálið kemur upp þegar klæðskerinn krefst þess að ég endurgreiði honum lánið sem hann lét mig hafa. Þá verð ég ekki lengur glaður og ég þarf hugsanlega að selja jakkafötin mín á brunaútsölu."

Wade sagði að hrun hefði verið þeim mun líklegra vegna þess að útþensla íslensku bankanna og fjárfestingarfyrirtækja hefði líklega verið keyrð áfram á sviksamlegri starfsemi, meðal annars sviksamlegu verðmati á eignum - og vegna þess að eftirlitsaðilar hefðu sýnt þvílíka og ótrúlega vangetu.

Notuðu bankana sem sína eigin sparibauka

Wade sagði að bankamennirnir og bankaráðin hefðu stuðlað að því með virkum hætti að íslenska hagkerfið var keyrt fram af bjargbrún. „Nú er ljóst að þeir notuðu bankana sem sína eigin sparibauka og brutu grundvallarreglur heilbrigðrar bankastarfsemi í þágu eigin viðskiptahagsmuna."

Þá sagði hann að tæknin sem þeir notuðu til að búa til falskar eignir með sviksamlegum færslum á milli banka og tengdra fjárfestingarfyrirtækja væri nú vel þekkt. „Einnig sú sviksamlega tækni sem þeir notuðu til að fá sparifjáreigendur til að færa inneignir sínar í peningamarkaðssjóði sem tengd fjárfestingarfyrirtæki stjórnuðu."

Wade velti því fyrir sér hvers vegna þeir hefðu komist upp með þessa hegðun og sagði að það hefði verið í verkahring Seðlabankans og Fjármálaeftirlitið að koma í veg fyrir slíkt.

„Samt sem áður fór Fjármálaeftirlitið að haga sér fremur eins og þátttakandi í hagnaðarleit bankanna fremur en sem eftirlitsaðili," sagði hann og bætti því við að FME hefði meira að segja hjálpað Landsbankanum að safna inneignum á Icesave-reiknina í Hollandi, eftir að bresk stjórnvöld hefðu reynt a takmarka starfsemi Icesave.

Fjármálaeftirlitið hefði sömuleiðis ekki gert nein próf á virði uppgefinna eigna bankanna og fjárfestingarfyrirtækja „sem reyndust svo vera falskar að stórum hluta þar sem bankar og fjárfestingarfyrirtæki voru í vitorði um að ofmeta eignirnar."

Hann sagði að eftirlitsmenn í Seðlabanka og í FME bæru því ábyrgir.

Kalla saman erlenda sérfræðinga

Wade fór yfir þær aðgerðir sem grípa þyrfti til og nefndi þar fyrst að kalla þyrfti saman hóp mjög hæfra erlendra sérfræðinga í bókhaldsrannsóknum og endurskipulagningu ríkisskulda. Sá hópur þyrfti að gera ítarlega rannsókn á því hvar peningarnir væru og kortleggja mögulega leið til bata.

Það hefði reyndar átt að gerast strax eftir hrunið. Í stað þess hefðu viðbrögð Seðlabankans og fjármálaráðuneytis verið tilviljanakennd. Ekki hefði verið til staðar góð þekking á eignum og skuldum bankanna og fjárfestingarfyrirtækjanna.

Annað skref sem grípa þyrfti til væri að víkja Seðlabankastjóra úr starfi. Þannig mætti endurheimta orðspor Íslands. Seðlabankastjóri hefði greinilega lítinn skilning á alþjóðlegum fjármálum.

Þriðja skrefið sem grípa þyrfti til - og það strax - væri að forsætisráðherra myndi biðja þjóðina afsökunar á því áfalli sem landið hefði orðið fyrir á hans vakt. Þá sagði hann að íslenska ríkisstjórnin myndi sýna lýðræðsvilja sinn best í verki með því að boða til nýrra kosninga.