Seðlabanki Bandaríkjanna skoðar nú hvaða leiðir eru færar til að endurræsa hagkerfi landsins eftir vaxtalækkun nokkurra annarra seðlabanka í gær. Þetta kemur fram í frétt WSJ í dag, sem segir að þar sem vextir bandaríska seðlabankans séu þegar lágir, 1%, séu stjórnendur bankans að velta fyrir sér óhefðbundnum leiðum. Þeir munu hittast 15. og 16. þessa mánaðar til að taka ákvörðun um næstu skref og WSJ segir að almennt sé talið að þeir muni einnig lækka stýrivextina enn frekar. Ennfremur sé verið að íhuga að stuðla að lækkun annarra vaxta, svo sem af veðlánum eða neyslulánum, sem seðlabankinn reyni almennt ekki að hafa bein áhrif á.

Í gær lækkuðu nokkrir aðrir seðlabankar stýrivexti sína. Seðlabanki Evrópu lækkaði um 0,75 prósentur í 2,5%, Englandsbanki lækkaði um 1 prósentu í 2,0%, Riksbank í Svíþjóð lækkaði um 1,75 prósentur í 2,0% og seðlabankinn á Nýja-Sjálandi lækkaði um 1,5 prósentur í 5,0%.