Seðlabanki Bandaríkjanna hefur lækkað stýrivexti um 75 punkta, úr 3% í 2,25%.

Vaxtalækkunin, enda þótt hún sé mjög stór á sögulegan mælikvarða, olli fjárfestum nokkrum vonbrigðum. Framvirkir samningar á mánudaginn sýndu að meira en helmingur fjárfesta taldi að vextir yrðu lækkaðir um 100 punkta, á meðan aðrir gerðu ráð fyrir fyrir annað hvort 75 punkta eða 125 punkta lækkun.

Eftir hinar róttæku aðgerðir seðlabankans um síðastliðna helgi – björgun Bear Stearns og útvíkkun á útlánareglum bankans – var það mat flestra hagfræðinga að allt undir 100 punkta vaxtalækkun, myndi valda fjárfestum og markaðsaðilum vonbrigðum. Gengi Bandaríkjadals styrktist lítillega gagnvart evrunni eftir ákvörðun bankans.

Átta stjórnarmenn í vaxtaákvörðunarnefnd seðlabankans greiddu atkvæði með 75 punkta vaxtalækkun bankans. Tveir stjórnarmenn vildu hins vegar grípa til hófsamari vaxtalækkana. Stýrivextir í Bandaríkjunum hafa ekki verið lægri frá því í desembermánuði árið 2004.

Í tilkynningu sem vaxtaákvörðunarnefndin sendi frá sér kemur fram að meiri ógn stafi af hættunni á niðursveiflu í bandaríska hagkerfinu, þrátt fyrir að bankinn viðurkenni að verðbólguþrýstingur hafi aukist að undanförnu. Flestir hagfræðingar eru sammála um að bandaríska hagkerfið sé nú þegar í samdráttarskeiði.