Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir mikilvægt að viðurkenna þá hættu sem stafi af minnkandi hagvexti.

Í ræðu sem hann hélt á fundi fjármálanefndar Bandaríkjaþings fyrr í dag, sagði Bernanke að forsvarsmenn seðlabankans „þyrftu að meta hvort stýrivaxtaákvarðanir bankans hingað til séu að hafa þau áhrif sem þeim var ætlað".

Hann bætti því jafnframt við að seðlabankinn „myndi grípa tímalega til frekari aðgerða" gerist þess þörf til að stemma stigu við stigu við hugsanlegum samdrætti.

Ummæli Bernanke svipaði mjög til þeirra sem hann lét falla fyrir um mánuði síðan og gefa til kynna að seðlabankinn muni án efa lækka stýrivexti á fundi vaxtaákvörðunarnefndar bankans 18. mars næstkomandi. Framvirkir samningar sýna að fjárfestar hafa nú þegar verðlagt 100 punkta vaxtalækkun til viðbótar á þessu ári, en frá því í september síðastliðnum hafa vextir verið lækkaðir um 225 punkta - úr 5,25% í 3%.

Í ræðu Bernanke komu fram engar vísbendingar um að hann teldi að botninum á húsnæðismarkaði væri náð. Þvert á móti, þá sagði Bernanke að húsnæðisverðlækkanir myndu hvíla þungt á hagkerfinu á komandi ársfjórðungum. Bernanke benti jafnframt á að svo virtist sem farið væri að hægja verulega á einkaneyslu almennings, á sama tíma og hækkandi orkuverð og aukið atvinnuleysi gæti orðið til þess að ýta enn frekar undir slíka þróun.

Nánar verður fjallað um málið á erlendum síðum Viðskiptablaðsins á morgun.