Seðlabanki Englands tilkynnti á fimmtudag að stýrivextir bankans yrðu hækkaðir úr 4,5% upp í 4,75%.

Hækkunin kom flestum greiningaraðilum á óvart, en 24 af 30 greiningaraðilum sem Dow Jones fréttastofan leitaði álita hjá spáðu að vextir bankans yrðu óbreyttir.

Spáð er að verðbólga sem tekur mið af neysluverðsvísitölu mun verða yfir markmiði bankans, sem er 2%, um einhvern tíma, sagði bankinn.

"Viðskipti milli Íslands og Bretlands eru mikil og munu íslenskir fjárfestar í Bretlandi verða áþreifanlega varir við það ef tímabil vaxtahækkana er hafið í Bretlandi," segir greiningardeild Glitnis.

Uppvöxtur fyrirtækja, takmörkuð umfram framleiðslugeta, auknar skuldir, aukið sparifé og líkur þess að verðbólgan verði yfir markmiði bankans eru gefnar upp sem ástæður hækkunarinnar, en með henni vonast bankinn til að ná verðbólgu neysluverðsvísitölu niður, sagði bankinn.

Í tilkynningu bankans segir að hreyfing efnahagsins hafi aukist undanfarna mánuði, eyðsla heimilanna hafi aukist sem og fjárfestingar fyrirtækjanna.