Seðlabanki Evrópu varaði í gær við því að bankar á evrusvæðinu væru enn í talsverði hættu á falli, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að koma bönkunum til aðstoðar með því að setja í þá aukið rekstrarfé.

Þetta kom fram á ráðstefnu sem haldin var á vegum Seðlabankans í gær. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að ekkert svigrúm sé fyrir bankana til að „sleppa undan“ vandanum, allir þyrftu að afskrifa töluvert fjármagn á næstu mánuðum og hjá því verði ekki komist. Þá gerir Seðlabankinn ráð fyrir að evrópskir bankar þurfi að afskrifa allt að 283 milljarða dali fyrir lok næsta árs.

En bankinn lét ekki þar við sitja. Í frétt Reuters kemur fram að bankinn hafi ítrekað fyrir öðrum bönkum og fjármálastofnunum að í framtíðinni þyrfti að vanda útlán sín mun betur enda væri að koma í ljós að stór hluti útlána bankanna væri ónýtur. Án þess að það kæmi fram í tilkynningu Seðlabanka Evrópu var það þó rætt á ráðstefnunni að sögn Reuters, að hér væri meðal annars átt við lán sænskra og annarra evrópskra banka til Eystrasaltsríkjanna.