Seðlabanki Evrópu tilkynnti í gær að hann væri reiðubúinn að grípa til enn frekari aðgerða til að draga úr spennu á fjármálamörkuðum. Þessi skilaboð bankans koma aðeins einum degi áður en stjórn bankans kemur saman til fundar [í dag] og tekur ákvörðun um stýrivexti á evrusvæðinu, en þeir standa í 4% um þessar mundir. Ólíklegt þykir að þeir verði hækkaðir.

Financial Times greinir frá því að í tilkynningu evrópska seðlabankans sem hann sendi frá sér hafi bankinn heitið því að veita enn frekari innspýtingu fjármagns inn á fjármálamarkaði, heldur en hann hefur nú þegar gert. Ummæli seðlabankans komu í kjölfar þess að svokallaðir LIBOR vextir í evrum - sem vísar til þeirra vaxta sem bjóðast á skammtímalánum á millibankamarkaði i London - náðu sína hæsta gildi í sex ár í gær, auk þess sem Englandsbanki hafði skömmu áður reynt að lægja ölduganginn á fjármálamörkuðum, þegar hann tjáði sig í fyrsta skipti opinberlega frá því undirmálslánakrísan (e. subprime-mortages) á bandaríska fasteignamarkaðinum hófst fyrir mánuði. Englandsbanki gaf til kynna að hann gæti veitt fjármagni inn á markaði í næstu viku ef hann telur að útlit sé fyrir áframhaldandi vandræði í tengslum við vaxandi lausafjárþurrð á fjármagnsmörkuðum.

Chiara Corsa, hagfræðingur hjá UniCredit, segir í samtali við Financial Times að tilkynning bankans hafi komið fjárfestum verulega á óvart, sökum þess að hann hafi hingað til sýnt takmarkaðan vilja í þá veru að bregðast við vandræðunum á mörkuðum. Englandsbanki lagði hins vegar áherslu á hugsanlegar aðgerðir bankans miðuðu ekki að því að lækka þriggja mánaða LIBOR vexti, sem námu 6,8% í gær og eru því orðnir meira en hundrað punktum hærri heldur en 5,75% stýrivextir bankans. Blaðið hefur eftir fjármálaskýrendum að sökum þessara ummæla Englandsbanka sé líklegt að slíkur munur á LIBOR vöxtum og stýrivöxtum muni viðhaldast - og jafnvel aukast - þangað til að því komi að áhyggjur fjárfesta af því hversu umfangsmikil undirmálslánakrísan er fari verulega minnkandi.

Seðlabanki Evrópu sagði að órói á evrópskum peningamarkaði hefði aukast undanfarin misseri, en bankinn myndi hins vegar fylgjast "grannt með þróun mála". Í tilkynningunni kom jafnframt fram að ef ástandið myndi ekki batna á morgun [í dag], þá væri "Seðlabanki Evrópu tilbúinn til að ráðast í aðgerðir til að koma á jafnvægi á evrópskum peningamarkaði." Þau ummæli eru á skjön við nýlega yfirlýsingu sem bankinn lét frá sér um aðstæður á peningamarkaði væru að færast í eðlilegt horf.

Fjárfestar eiga flestir von á því að evrópski seðlabankinn haldi stýrivöxtum sínum óbreyttum í dag í ljósi fyrri ummæla Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra, um að bankinn hafi endurskoðað afstöðu sína frá því fyrir mánuði síðan. Samkvæmt skoðanakönnun Dow Jones-fréttaveitunnar telja 39 fjármálastofnanir af 51 að vextir haldist áfram óbreyttir í 4%. Að sögn sérfræðinga yrði hækkun stýrivaxta um 25 punkta áfall fyrir fjármálamarkaði - eitthvað sem seðlabankinn vill með öllu móti forðast.