Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 25 punkta í dag og eru vextir bankans nú 2,5%, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Þetta er í annað skiptið sem vextir eru hækkaðir á þremur mánuðum, en frá apríl 2003 til janúar 2005 stóðu vextir óbreyttir á Evrusvæðinu.

Seðlabankinn gaf til kynna að frekari hækkana væri að vænta á næstunni í kjölfar aukins hagvaxtar og verðbólguþrýstings.

Samkvæmt Seðlabankanum mun hagvöxtur á Evrusvæðinu vera um 2,1% á árinu sem er aukning frá hagvaxtarspá sem bankinn kynnti í desember og hljóðaði upp á 1,9% hagvöxt.

Evran vegur þyngst í gengisvísitölu krónunnar, um 41%, og því hefur evrópski Seðlabankinn mest áhrif á vaxtamuninn við útlönd, segir greiningardeildin.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins nema um 2.500 milljörðum króna og því eru áhrifin af þessari hækkun á íslenskt efnahagslíf töluverð.

Ef bankinn hækkar vexti eykur það vaxtagreiðslur af lánum sem tekin eru í Evrum og að mati Greiningardeildar flæða út um 3 milljarðar króna aukalega fyrir vikið