Seðlabanki Evrópu ákvað á fundi sínum í gær að hækka stýrivexti um 0,25 stig - upp í 4% - eins og fastlega hafði verið gert ráð fyrir. Þegar lesið er í yfirlýsingu seðlabankastjóra bankans, Jean Claude Trichet, þegar hann rökstuddi ákvörðunina er sennilegt að von sé á enn frekari vaxtahækkunum á þessu ári, en Trichet sagði að vextir bankans væru enn nægilega lágir til að styðja við frekari hagvöxt á evrusvæðinu. Bankinn varaði þó við hættunni á auknum verðbólguþrýstingi og launaskriði á evrusvæðinu.

Trichet sagði á fjölmiðlafundi að hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi þessa árs hefði haldið áfram að aukast, sökum aukinnar innlendrar og erlendar eftirspurnar. Í máli Trichet kom fram að peningamálastefna bankans væri farin að skila árangri sem sæist í því að útlán væru farin að dragast saman á evrusvæðinu. Sérstaklega var eftir því tekið að Trichet sagði að Seðlabanki Evrópu myndi fylgjast "náið" með verðlagsþróun en ekki "mjög náið" líkt og bankinn hefur orðað það í fyrri tilkynningum sem hann hefur sent frá sér.

Sumir markaðsaðilar túlkuðu þau ummæli seðlabankastjórans á þá leið að þrátt fyrir að peningamálstefnu bankans yrði enn haldið óbreyttri, þá væri ekki von á annarri stýrivaxtahækkun fyrr en í fyrsta lagi í september á þessu ári. Í kjölfarið hækkuðu þýsk ríkisskuldabréf og evran lækkaði gagnvart Bandaríkjadal.

Seðlabankinn hefur núna hækkað stýrivexti sína átta sinnum - í öll skiptin um 0,25 stig - frá því að hann hóf að framfylgja stífri peningamálastefnu í desembermánuði árið 2005. Stýrivextir bankans hafa núna ekki verið hærri frá því árið 2001.

Bankinn hækkaði auk þess hagvaxtarspá sína fyrir núverandi ár. Hin nýja spá seðlabankans gerir núna ráð fyrir því að hagvöxtur á evrusvæðinu á þessu ári verði um 2,6%, sem er hækkun um 0,1 prósentustig. Evrópski seðlabankinn hefur iðulega hert á peningamálastefnu sinni þegar hagvöxtur á evrusvæðinu kemst á skrið, en vöxtur á fyrsta ársfjórðungi ársins mældist 0,6%, sem var nokkuð yfir spám greiningaraðila.