Seðlabanki Evrópu hyggst hætta að nota svokölluð dulmálsorð (e. code-words) þegar hann reynir að gefa til kynna að bankinn ætli að breyta stýrivöxtum sínum á næstunni. Þetta kom fram í viðtali við Axel Weber, einn af meðlimum Seðlabankaráðsins, í viðtali við Financial Times á mánudaginn.

Að sögn Webers ætlar bankinn ekki framar að notast við orðtök á borð við að Seðlabanki Evrópu muni sýna "mikla árvekni" (e. strong vigilance) til að láta það í ljós að vaxtakostnaður muni væntanlega hækkar síðar í mánuðinum.

Seðlabanki Evrópu mun ekki fylgja í fótspor Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna og senda frá sér stutta yfirlýsingu í kjölfar þess að stjórn bankans hefur tekið stýrivaxtaákvörðun. Weber segist fremur vilja halda því áfram að boðað sé til fjölmiðlafundar einu sinni í mánuði eftir að Seðlabanki Evrópu hefur ákveðið stýrivexti. Reynslan af því hefur verið góð: Fyrirsjáanleiki varðandi stýrivaxtaákvarðanir bankans hefur aukist, sem aftur hefur skilað sér í árangursríkari peningamálastefnu.

Stjórn Seðlabanka Evrópu ætlar að leggja mesta áherslu á leiðsögn til lengri tíma um hvernig bankinn muni bregðast við mismunandi ástandi í efnahagslífinu. Í viðtali við Financial Times heldur Weber því fram að einhvers konar dulmálsorð "geti ekki komið í stað djúprar greiningar á þróun efnahags- og peningamála. Það sem er jafnvel mikilvægast fyrir peningamálastefnu er að marka stefnumótun til lengri tíma og hvernig ákveðnar upplýsingar sem muni koma fram á þeim tíma verði meðhöndlaðar þegar ákvörðun um stýrivexti er tekin".

Fyrir allt venjulegt fólk - og stjórnmálamenn einnig - eru flest þessi dulmálsorð sem bankinn hefur beitt hingað til, líkt og erlent tungumál, að mati Webers. Þrátt fyrir það að einhverjir aðilar á markaði telji sig þurfa á slíkum orðum að halda, þá eru þau engu að síður óþörf. Það væri betra tala skýrt mál sem allir ættu auðvelt með að skilja hvað þýddi í raun og veru. Slíkt myndi tryggja það að ekki kæmi upp neinn misskilningur um hver stefna bankans væri.