Seðlabanki Evrópu kom Portúgal tímabundið til bjargar í dag með kaupum á skuldabréfum ríkisins. Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir skuldabréfamiðlurum.

Þrýstingur á stjórnvöld í Portúgal hefur aukist síðustu daga og vilja margir að landið óski eftir efnahagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ESB. Meðal þeirra ríkja sem þrýst hafa á Portúgal eru Þýskaland og Frakkland.

Í frétt Reuters kemur fram að svo virðist sem Seðlabanki Evrópu sé einnig að kaupa skuldabréf Grikklands og Írlands, sem bæði hafa fengið efnahagsaðstoð.