Seðlabanki Evrópu hefur lýst því yfir að hann muni í dag tryggja fjármálafyrirtækjum evrusvæðisins ótakmarkað lánsfé á föstum 4,21% vöxtum fram yfir áramót, að því er segir í WSJ. Þetta er í annað sinn á þeim níu árum frá því bankinn var stofnaður sem hann gefur út slíka yfirlýsingu. Fyrra skiptið var 9. ágúst sl. þegar ótti vegna undirmálslánakrísunnar þrýsti upp daglánavöxtum og varð til þess að bankinn dældi 95 milljörðum evra út á markaðinn.

WSJ segir að Seðlabanki Evrópu fylgist vel með mögulegri spennu á peningamarkaði síðustu daga ársins, en frá því í ágúst hafi bankar hikað við að lána hverjir öðrum í meira en nokkra daga. Nú vilji þeir hafa nægt handbært fé til að mæta óvæntum skuldbindingum auk þess sem þeir vantreysti lánsfjárhæfi hvers annars. Þetta er sagt ýta undir þá tilhneigingu sem bankar sýna jafnan, að vera með sem besta lausafjárstöðu um áramót.