Seðlabanki Evrópu sagðist í gær ætla að sýna fyllstu árvekni til að tryggja verðstöðugleika hjá þeim þrettán ríkjum sem nota evruna sem gjaldmiðil. Þetta kom fram í mánaðarlegri fréttatilkynningu frá bankanum.

Þar kemur einnig fram að bankinn telji stýrivexti sína vera við neðstu mörk um þessar mundir, en ákveðið var að halda þeim óbreyttum í 3,5% þann 8. febrúar. Greiningaraðilar segja að í ljósi þessara orða bankans bendi margt til þess að hann hyggist hækka vexti sína í byrjun næsta mánaðar upp í 3,75%. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti um 0,25 stig sex sinnum frá því í desember árið 2005.