Samkomulag norrænu seðlabankana frá árinu 2003 um viðbrögð við fjármálaáföllum er enn í fullu gildi segir Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands en sumir erlendir fjölmiðlar drógu það í efa í fréttum sínum í dag.

Tryggvi segir misvísandi fréttaflutningur stafi hugsanlega af því að menn séu að spá í hvað þetta samkomulag geti falið í sér ef til fjármálaáfalls kæmi.

„Norrænu seðlabankarnir eru allir með þetta samkomulag inni á vefsíðum sínum ásamt fréttatilkynningu sem var útbúin á ensku og síðan þýdd á tungumál hvers lands. Samkomulagið er algerlega lifandi og raunar hittumst við í síðasta mánuði í þessum tengslahóp. Það má vænta þess að samkomulagið verði endurnýjað þegar tímabært er," sagði Tryggvi í samtali við Viðskiptablaðið.