Seðlabanki Kína hækkaði í dag stýrivexti um 25 punkta. Er það í fyrsta skipti síðan árið 2007 sem bankinn hækkar vexti.

Bankinn kom markaðinum nokkuð á óvart með ákvörðun sinni um 25 punkta vaxtahækkun en hún er í takti við aukinn ótta við hækkun eignaverðs og verðbólgu, að því er segir í frétt Reuters.

Vaxtahækkunin hefur haft áhrif víða um heim. Verð á olíu hefur lækkað á mörkuðum í dag, hlutabréfamarkaðir tóku dýfu í Evrópu og dollarinn hækkaði í verði sem rakið er til viðbragða fjárfesta.

Sumir telja að stýrivaxtahækkun Kínverja marki fyrstu skref í aðhaldssamari peningamálastefnu en hagvöxtur hefur um langt skeið verið mikill í Kína.