Seðlabanki Kína hefur keypt hlut í næststærsta trygginafyrirtæki Bretlands, Prudential. Kaupin eru sögð hluti af áætlunum kínversku stjórnarinnar að losa um stórar stöður í erlendri mynt með því að fjárfesta á erlendum mörkuðum. Sunday Telegraph segir frá þessu í dag.

Hluturinn nemur um einu prósenti af öllu hlutafé Prudential, en seðlabankinn hefur byggt upp hlutinn á síðustu vikum. Hluturinn er sagður hafa verið keyptur í gegnum veltureikning þriðja aðila.

Ekkert bendir til þess að kaupin séu aðdragandi yfirtöku, að því er kemur fram í fret Sunday Telegraph. Því er haldið fram að staða seðlabankans í Prudential sé einungis ein fjölmargra í skráðum félögum víðsvegar um Evrópu.

Prudential hefur ekki viljað tjá sig um eignarhald seðlabankans í félaginu, en heimildir Sunday Telegraph herma að engin samskipti hafi átt sér stað milli seðlabankans og tryggingafélagsins.

Kínversk stjórnvöld hafa á síðustu mánuðum sett upp fjárfestingasjóði af ýmsu tagi til að dreifa áhættu sinni í erlendri gjaldeyrisstöðu. China Investment Corporation (CIC) er einn þeirra,  en 200 milljarða dollarar voru settir í þann sjóð við stofnun hans. CIC er meðal annars með stöður í fjárfestinga- og eignarhaldsfélaginu Blackstone (1,5 milljarðar dollara) og fjárfestingabankanum Morgan Stanley (2,5 milljarðar dollara).