Seðlabanki Íslands stendur við spá sína frá því í apríl um 30% lækkun íbúðarverðs að raunvirði á næstu þremur árum.

Á fréttafundi bankastjórnar eftir stýrivaxtaákvörðun bankans í gær sagði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar, bankann ekki vera að tala niður fasteignaverð heldur einungis að horfa á þær staðreyndir sem blasa við.

Aðspurður um hvaða áhrif breytingar á Íbúðarlánasjóði frá því 19.júní hafi á spána segir Davíð:

„Við erum þeirrar skoðunar ennþá að þessi spá hafi í öllum meginatriðum verið rétt, og kannski varfærin. Við getum ekki sagt fyrir um það hvaða áhrif breytingar á Íbúðarlánasjóði hafa gagnvart þessu. Við teljum þó að líkur standi til þess að þetta hafi ekki meginbreytingar í för með sér gagnvart þeirri spá. Bæði hér og annarsstaðar gerist það að hin mælanlega lækkun á fasteignaverði gengur hægar fram heldur en menn myndu ætla. Kaupsamningum hefur fækkað gríðarlega hratt. Lengi framan af þá halda menn, sem hafa sett fasteignir á sölu, eignum sínum á hærra verði en raunhæft er að búast við. Því er hætta á að spá bankans muni standast.“