Seðlabanki Svíþjóðar, Rikisbank neitaði Seðlabanka Íslands fyrir nokkrum vikum að nýta sér gjaldeyrisskiptasamning milli bankanna.

Þetta kemur fram á fréttavef Dow Jones og er haft er eftir Barbro Wickman-Parak, aðstoðar seðlabankastjóra.

Hún segir í samtali við Dow Jones að þegar beiðni um gjaldeyrisskipti hefðu komið frá Seðlabankanum hafi íslensk yfirvöld átt í samræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) og því hafi Rikisbank ákveðið að bíða og sjá hvað kæmi út úr þeim viðræðum.

Þá segir Wickman-Parak að Rikisbank muni að öllum líkindum ekki koma að björgunaraðgerðum til handa íslenska hagkerfinu í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Hún sagði þó að tvær leiðir væru færar í að aðstoða Ísland. Annars vegar væri um að ræða gjaldeyrislánalínu upp á 500 milljónir evra sem samþykkt var í maí síðastliðnum og hins vegar sértækar aðgerðir sænsku ríkisstjórnarinnar sem nú væru ræddar meðal Norðurlandaþjóðanna.

„Um leið og áætlun IMF verður samþykkt kemur í ljóst hvort Seðlabanki Íslands geti nýtt sér gjaldeyrisskipasamninginn,“ segir Wickman-Parak í samtali við Dow Jones.

Hún bætir því við að allar aðrar aðgerðir séu undir ríkisstjórn Svíþjóðar komnar.

Þá hefur Dow Jones fréttaveitan eftir Markus Sjoqvist, talsmanni sænska fjármálaráðuneytisins að stöðugar viðræður eigi sér stað meðal Norðurlandaþjóðanna þó engar upphæðir séu fastar í hendi ennþá.