það er ekki hlutverk Seðlabankans að meta yfirlýsingar ráðherra og vera með hnútukast um þær í fjölmiðlum, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Í kjölfar þess að Seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti um 50%, eða úr 12% í 18%, á miðvikudag, var haft eftir Þorgerði Katrínu að ákvörðunin ylli vonbrigðum.

Það vakti athygli í gær að Seðlabanki Íslands gaf út yfirlýsingu þar sem segir að þótt litið sé svo á að samningsgerð á milli ríkisstjórnar Íslands og sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé enn trúnaðarmál eigi það „eðli málsins samkvæmt" ekki lengur við um 19. lið samningsgerðarinnar: „Ráðherrar úr ríkisstjórn hafa undrast vaxtahækkun í 18% og hafa jafnframt sagt að ekkert ákvæði um slíka gjörð sé í samningsgerðinni“, segir í tilkynningu Seðlabankans, og síðan vitnar Seðlabankinn í 19. liðinn um að þar sé kveðið á um að einn liðurinn í henni sé sá að hækka stýrivexti í 18%.

Viðskiptablaðið bar þetta undir Þorgerði Katrínu sem sagði aðspurð að svo gæti a.m.k. virst sem ummæli höfð eftir henni í fjölmiðlum daginn sem tilkynnt var um vaxtahækkunina hefðu orðið tilefni þessarar yfirlýsingar Seðlabankans.

Hún telur að hugsanlega sé einnig verið að vísa til orða iðnaðarráðherra í þessari yfirlýsingu bankans:

„Í sambandi við þessa vaxtahækkun vil ég undirstrika að það er alveg ljóst að þetta var samkomulag stjórnvalda og IMF. Það samkomulag var gert með vitund og vilja Seðlabankans og lá alveg ljóst fyrir. Það sem ég hef verið að segja – og orð mín hafa hugsanlega verið slitin úr samhengi í fjölmiðlum – er að við, sem vorum talsmenn þess að Seðlabankinn hefði lækkað vexti og hætt hávaxtastefnu sinni miklu fyrr en hann gerði, höfum orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum en þessi vaxtahækkun var algjörlega nauðsynleg og það er enginn að firra sig ábyrgð. En það er hins vegar ekki hlutverk Seðlabankans að meta yfirlýsingar ráðherra og vera með hnútukast um þær í fjölmiðlum."

Sjá nánar helgarviðtal við Þorgerði Katrínu í Viðskiptablaðinu í dag.