*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 30. apríl 2009 16:30

Seðlabankinn á lokaspretti með lausn á krónubréfunum

Ritstjórn

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins innan úr Seðlabankanum er unnið að því að finna leið til að gera erlendum eigendum krónubréfa kleyft að komast úr stöðu sinni til að létta þrýstingi á krónuna. Er þá rætt um að fundinn verði aðferð til þess að þeir geti skipt þeim yfir í skuldabréf innlendra aðila. Eftir því sem komist verður næst er tíðinda að vænta fljótlega hvernig það myndi ganga fyrir sig, jafnvel í næstu viku. 

Seðlabankinn hyggst með þessu færa sig nær þeim möguleika að aflétta gjaldeyrishöftunum en ætlun hans er að það verði gert í áföngum síðar á árinu. Hvenær það verður, fer meðal annars eftir því hvernig gengur að aflétta á krónubréfastöðunum.

Eins og kom fram í Viðskiptablaðinu í dag þá er verið að skoða leiðir til að hleypa óþolinmóðustu fjárfestunum sem fastir eru í krónustöðum út. Í blaðinu er bent á verið er að skoða möguleika á að innlendir aðilar fái að gefa út skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum – og þá helst horft til Bandaríkjadals. Samkvæmt heimildum blaðsins innan úr Seðlabankanum er reiknað með að tilkynnt verði um útfærslu þessarar leiðar fljótlega.

Nú þegar munu nokkrir þeirra aðila sem líklegir eru til að gefa út slík bréf hafa þreifað á eigendum krónubréfanna og fengið jákvæð viðbrögð.