Seðlabankinn bíður skýrari vísbendinga þess efnis að verðbólga sé á undanhaldi og mun ekki hætta að hækka vexti fyrr en þessar vísbendingar eru komnar í ljós svo ekki verður um villst.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í morgun þar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri kynnti rökstuðning bankans fyrir hækkun stýrivaxta um 0,5 prósentustig nú í morgun. Stýrivaxtahækkunin er sú 17. í röðinni síðan vaxtahækkunarferill Seðlabankans hófst vorið 2004.

Davíð sagði að þrátt fyrir að spá Seðlabankans þess efnis að verðbólga næði hápunkti í 11% á þriðja ársfjórðungi þessa árs gangi ekki eftir væri enn mikið ójafnvægi sem ekki væri hægt að líta framhjá.

Viðskiptahalli á fyrri hluta ársins er mun meiri en áður var talið samkvæmt nýjum mælingum Hagstofunnar og þá væri vöxtur innlendrar eftirspurnar og framleiðsluspenna enn mikill, líkt og tölur Hagstofunnar gefa til kynna.

Davíð sagði að nauðsynlegt sé að Seðlabankinn beiti þeim tækjum, sem hann hefur umsjón yfir til að tryggja að verðbólga nái ekki að festast í sessi. Davíð sagði jafnframt að sú gagnrýni sem stefna bankans hefur fengið að undanförnu frá talsmönnum atvinnulífsins yrði að taka mið af því hvert hlutverk bankans er og með vaxtahækkuninni í dag væri einmitt verið að sinna því hlutverki. Ennþá væri undirliggjandi spenna í hagkerfinu sem þyrfti að bregðast við og ekki sé hægt að horfa framhjá.

Hækkun stýrivaxta í dag var í takt við væntingar greiningaraðila sem búast við að hækkunin í dag verði að öllum líkindum sú síðasta í langri röð hækkanna og að vextir hafi nú náð hámarki í 14%. Næsti vaxtaákvörðunardagur bankans er þann 2. nóvember næstkomandi og þá koma einnig út Peningamál samhliða ákvörðuninni.

Davíð sagði á fundinum í dag að í Peningamálum yrði lögð fram ný verðbólguspá sem myndi taka tillit til breyttra aðstæðna í þjóðarbúskapnum og að næstu skref bankans yrðu í samræmi við það sem þar kæmi fram.