Seðlabankinn lækkaði innlánsvexti bankanna um 0,5 prósentur og bera innstæðurnar nú 9% vexti. Á sama tíma eykur Seðlabankinn útgáfu svokallaðra innstæðubréfa, sem bankarnir geta keypt og bundið innstæður til 28 daga. Hámarksvextir á þeim bréfum eru hækkaðir í 10,25% en lágmarksvextir verða áfram 9,5%. Því býðst bönkunum áfram að ávaxta lausafé sitt í Seðlabankanum á sömu og jafnvel hærri vöxtum en fyrir ákvörðun peningastefnunefndar, sem kynnt var í morgun. Þess vegna er óvissa um hvaða áhrif lækkun innlánsvaxta Seðlabankans hefur.

Jón Bjarki Bentsson segir að aukin útgáfa innstæðubréfa og hækkun hámarksvaxta hafi töluvert mótvægi við vaxtalækkunina á innlánsvöxtum bankanna í Seðlabankanum. "Seðlabankinn er í raun að skapa sér aukið svigrúm til að þurrka upp lausafé í bönkunum eftir því sem þörf er á. Þannig hækkar hámarksútgáfa innstæðubréfa úr 100 milljörðum króna í 120 milljarða og bönkunum bjóðast mögulega hærri vextir. Nettóáhrifin af vaxtalækkuninni eru því óviss og ekki hægt að tala afdráttarlaust um aukinn slaka við stjórn peningamála."

Vextir á veðlánum, sem venjulega eru kallaðir stýrivextir, lækka úr 12% í 11%. Þeir vextir skipta hins vegar litlu máli á meðan bankarnir eru fullir af lausu fé og hafa litla þörf á lánum frá Seðlabankanum. Daglánavextir lækka úr 14,5% í 13%.