Það sem af er ári hefur Seðlabankinn selt gjaldeyri fyrir rúma 10 milljarða króna, um 60 milljónir evra. Á fjórða fjórðungi í fyrra seldi Seðlabankinn margfalt meira, eða 330 milljónir evra af gjaldeyrisvaraforðanum. Töluvert minna af forðanum hefur því farið í inngrip síðustu mánuði en fyrstu mánuðina eftir hrun, að því er segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Gengisþróun gefur tilefni til bjartsýni

Gengið gagnvart evru var tiltölulega stöðugt í júlí, eða á bilinu 177 til 182 krónur. Þetta gefur tilefni til bjartsýni, segir í Hagsjá, þar sem peningastefnunefnd Seðlabankans hafi lagt lykiláherslu á stöðugleika krónunnar með tilliti til hugsanlegrar lækkunar stýrivaxta. Þó verði að teljast ólíklegt að vextir verði lækkaðir á næsta fundi peningastefnunefndar í ljósi þess sem komið hafi fram í síðustu fundargerð hennar.

Seðlabankinn með 30% af gjaldeyrisveltunni

Seðlabankinn stóð fyrir um 30% af veltu á gjaldeyrismarkaði í júlí og nam nettósla hans um 7,5 milljónum evra, eða um 1.350 milljónum króna. Þetta samsvarar því að bankinn hafi 10 sinnum beitt inngripum í mánuðinum, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Þrír aðilar eru á millibankamarkaði með gjaldeyri og lágmarksupphæð í hverjum viðskiptum er 250.000 evrur. Þetta eru minni inngrip en næstu tvo mánuði á undan, en þau voru um 19 í júní og 16 í maí.

Veltan á gjaldeyrismarkaði nú 1,7% af því sem áður var

Í Morgunkorni segir að fróðlegt sé að bera saman umsvif Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undanfarna mánuði og fyrir fall krónunnar og gjaldeyrishöft voru sett á. Árin 2004-2007 hafi raungengi krónu verið nánast samfellt yfir langtímameðaltali sínu og þetta tímabil megi kalla hágengisskeið krónunnar. Á þeim tíma hafi Seðlabankinn jafnt og þétt keypt gjaldeyri til að styrkja gjaldeyrisvaraforða sinn. Að meðaltali hafi kaupin numið 22 milljónum evra, 1,9 milljörðum evra, á mánuði á þessu tímabili. Kaupin hafi hins vegar lítil áhrif haft enda hafi meðalvelta á mánuði verið 260 milljarðar króna. Það sem af er ári hafi meðalveltan verið 1,7% af því sem verið hafi á árunum 2004-2007.

Gagnrýnisvert að Seðlabankinn skuli ekki hafa byggt upp meiri forða

Í Morgunkorni segir að gagnrýna megi Seðlabankann fyrir að hafa ekki byggt forða sinn meira upp á hágengistímabilnu en með tiltölulega lítilli fyrirhöfn hefði hann getað byggt upp forða á þeim tíma sem nú hefði skipt sköpum í enduruppbyggingu íslensks efnahagslífs. „Ber þetta með sér að bankinn hafi í raun ekki gert sér grein fyrir þeirri hættu á gjaldeyris- og bankakreppu sem var fyrir dyrum. Uppbygging myndalegs gjaldeyrisforða á þessum tíma hefði dregið verulega úr þörf fyrir erlenda lántöku ríkissjóðs um þessar mundir,“ segir í Morgunkorni.