Stefán Jóhann Stefánsson, frá Seðlabanka Íslands, segir það ekki góðan sið að upplýsa um viðskipti annarra mótaðila á gjaldeyrismarkaði. Þess vegna upplýsi Seðlabankinn aðeins um inngrip sín á markaði á vef sínum að þremur viðskiptadögum liðnum og ætlist til þess að upplýsingar um viðskipti bankans komi frá honum sjálfum.

Eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins í morgun hefur Seðlabanki Íslands komið þeim upplýsingum á framfæri við viðskiptabankanna að þeir upplýsi ekki um að inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Þetta gerði bankinn formlega fyrir skömmu.

Það sem af er ári hefur Seðlabankinn keypt tæplega 15 milljarða króna á gjaldeyrismarkaði og varið til þess ríflega 80 milljónum evra af gjaldeyrisvaraforða bankans.