Seðlabanki Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem gerðar eru athugasemdir við frétt Morgunblaðsins í dag undir fyrirsögninni „Svindluðu á Seðlabankanum”, en þar var fullyrt að fjármálafyrirtæki hafi misnotað sér glufu í reglum bankans til að sækja sér „endalaus lán”.

Tekur Seðlabankinn fram að honum sé ókunnugt um að fjármálafyrirtæki hafi  „svindlað” á Seðlabankanum né heldur gert tilraun til þess í tengslum við veðlánaviðskipti.

Bankinn tekur fram að sérfræðingar bankans yfirfari öll viðskipti og gangi úr skugga um að þau uppfylli reglur bankans, auk þess sem bankinn áskilji sér rétt til að hafna viðskiptum telji hann ástæðu til þó að ekki sé um skýrt brot á reglum að ræða.

Útistandandi veðlán 435 milljarðar

Seðlabanki Íslands veitir fjármálastofnunum vikulega veðlán á grunnvöxtum bankans. Útistandandi fjárhæð nemur nú 435 milljörðum króna.

„Þessi fyrirgreiðsla er hliðstæð því sem tíðkast annars staðar og hefur farið vaxandi í sama mæli hér,” segir bankinn.

Endurskoðun á reglum bankans stendur fyrir dyrum, að því leyti að skilyrðum um veð í viðskiptum verður breytt.

„Eru breytingarnar til þess fallnar að fjölga möguleikum viðskiptabankanna á framlagningu veðhæfra eigna í Seðlabankanum,” segir í tilkynningu frá bankanum.

„Enn eitt skref í þeirri viðleitni hans að laga viðskiptaumhverfi íslenskra banka að því sem tíðkast í nágrannalöndunum og hafa reglur ECB m.a. verið hafðar þar að til hliðsjónar.”

Búið sé að birta fjármálastofnunum drög að nýjum reglum um þessi viðskipti og geti þeir gert athugasemdir.