Sú ákvörðun hefur verið tekin við spágerð Seðlabankans nú að gera ráð fyrir enn frekari seinkun framkvæmda við fyrsta áfanga álversins í Helguvík og orkuöflun og línulagnir því tengdu. Áætlað er að framkvæmdir frestist um ár en haldi áfram í samræmi við áætlanir byggingaraðila á árinu 2012.

„Af þessu leiðir að stóriðjufjárfesting mun einungis aukast um ríflega 4% á þessu ári í stað tæplega 14% aukningar miðað við forsendur ágústspárinnar. Á næsta ári verður munurinn enn meiri en þá eykst stóriðjufjárfesting um 19% í stað 77% aukningar áður. Í heild sinni breytist fjárfestingarmyndin þannig að framkvæmdir jafnast meira á næstu þrjú ár,“ sagði Þórarinn G. Pétursson á stýrivaxtafundi í dag þar sem ný Peningamál bankans voru kynnt.

Hagvöxtur hefði verið 0,2% hærri

„Fjárfesting mun áfram ná hámarki árið 2012 en við lægra stig en í ágústspánni. Fjárfesting árið 2013 verður meiri en gert var ráð fyrir í síðustu spá.

Séu forsendur ágústspárinnar um stóriðjufjárfestingu settar í núverandi grunnspá, gefur það um 0,2 prósentum meiri hagvöxt á þessu ári en í núverandi grunnspá og um prósentu meiri hagvöxt á næsta ári. Hagvöxtur verður hins vegar meiri á árunum 2012-13.

Atvinnuleysi yrði jafnframt um 0,7 prósentum minna en í grunnspánni á næsta ári og árið 2012 en svipað árið 2013. Seinkun þessarar fjárfestingar frá því sem áætlað var í ágústspánni hefur því ekki langtímaáhrif á hagvöxt og atvinnuleysi heldur seinkar efnahagsbatanum.“