Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra, jafngildi um 76 milljarða íslenskra króna, rétt áður en Kaupþing féll og tók á móti veð í öllum hlutabréfunum í FIH Erhvervsbank, dótturbanka Kaupþings í Danmörku.

Fullyrt var að það veð væri vel fullnægjandi og rúmlega það en nú virðist komið á daginn að áhöld séu um það.

Eigið fé FIH nam um mitt ár átta milljörðum danskra króna, eða um 160 milljörðum íslenskra króna, og við söluna þurfa þá að fást að minnsta kosti 50% af eigin fé eða V/I-hlutfallið 0,5 til þess að Seðlabanki Íslands komist hjá tapi vegna lánveitingarinnar.

Miðað við tölur sem nefndar eru í dönskum fjölmiðlum virðist engan veginn víst að það muni nást. Í versta falli gæti Seðlabankinn líklega tapað um 35 milljörðum íslenskra króna við söluna á FIH en í besta falli svona rétt sloppið með skrekkinn.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .