Þegar vaxtamunur hvarf á skiptasamningum fyrr á árinu greip Seðlabankinn til þess að auka útgáfu stuttra ríkisbréfa til að auðvelda erlendum fjárfestum aðgang að háum vöxtum.

Svipað var uppi á teningnum í gær þegar Seðlabanki Íslands hélt útboð í tveimur flokkum ríkisbréfa RIKB 09 0612 og RIKB 10 0317 og hugðist bankinn taka tilboðum fyrir samtals 15 milljarða.

Alls bárust tilboð fyrir 20,1 milljarð en einungis var ákveðið að taka tilboðum fyrir níu milljarða.

Greiningardeild Kaupþings segir niðurstöðuna í útboðinu virðast benda til þess að áhugi eftir nafnvaxtabréfum sé að einhverju leyti að dvína.

Til um marks um áhugaleysið bendir deildin einnig á að ekki hafi verið framlengt í öllum innistæðubréfum Seðlabankans sem féllu á gjalddaga á miðvikudaginn.

Þá hafi stöðutaka með krónunni, sem birtist í framvirkri stöðu bankakerfisins minnkað um 100 milljarða á breytilegu gengi og það sé ákveðin vísbending um að erlendir fjárfestar hafi lokað stöðum sínum í krónum og leiti nú síður í eftir ávöxtun í ríkisbréfum.