„Seðlabankinn hefur engin viðskipti átt á markaði með gjaldeyri eftir að millibankamarkaðurinn var endurræstur. Gengið hefur því ekki hreyfst á neinn hátt vegna beinna afskipta Seðlabankans,” sagði Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri í samtali við Viðskiptablaðið.

Ingimundur sagði að vissulega hefði Seðlabankinn rennt blint í sjóinn en það hefði þó legið fyrir að gengi krónunnar var orðið afar lágt. Því hafi verið viðbúið að það myndi hækka fyrr en síðar.

„Það er óhætt að segja að Seðlabankinn sé sáttur með hvernig til tókst með að hefja millibankaviðskipti á ný. Það var ekki gefið fyrirfram hvernig þetta myndi fara af stað en það var ánægjulegt að það skyldi gerast með þessum hætti.”

-         Það ferli sem er nú í gangi með gjaldeyrislögunum. Verður losað um það í einhverjum áföngum?

„Það er engin leið að segja til um það. Auðvitað vonum við að hægt verði að slaka á hömlum fljótt en framvindan ræður því. Gjaldeyrislögin hafa tveggja ára gildistíma sem fer saman við gildistíma samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þá falla þau úr gildi. Vonandi verður hægt að slaka á fyrr en framvindan sker úr um það. Það er of snemmt að segja nokkuð til um það á þessu stigi máls.”

-         Er hægt að gera einhverjar breytingar?

„Það er of snemmt að segja til um. Það verður allt metið í ljósi framvindunnar og ekki meira hægt að segja á þessu stigi enda svo skammt um liðið. frá setningu laganna. Auðvitað eru þetta ekki ákjósanlegar aðstæður – öðru nær og vonandi verður hægt að hverfa frá þessu fyrr en síðar.”

-         Lögin fela í sér stífa skilaskyldu á gjaldeyri. Sjáið þið að það haldi alveg?

„Við vonum að það geri það. Það er erfitt að hafa fullkomna stjórn á slíkum hlutum. Eins og skilyrði hafa verið er það útflytjendum ótvírætt í hag að koma heim með gjaldeyri.”