„Í ljósi þess hvernig gengi krónunnar hefur þróast það sem af er ári og fyrri yfirlýsinga Seðlabankans kemur þessi ákvörðun ekki á óvart,“ segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að þær aðstæður sem við erum í núna leiða hugann óhjákvæmilega að fyrirkomulagi peningamála. „Ég tel að það verðbólguskot sem við erum að taka á okkur núna í kjölfar gengisfalls krónunnar sé bein afleiðing af framkvæmd peningamálastefnu síðustu missera. Gengi krónunnar var keyrt upp með háum vöxtum í þeim tilgangi að minnka verðbólgu. Í raun var aðeins verið að fresta verðbólgunni því á einhverjum tímapunkti hlaut gengið að gefa eftir. Nú gerist það hins vegar með miklum skelli sem getur reynst mörgum harður. Gengið er fallið og vextir orðnir ógnarháir eða 15,5%. Hvað gerir Seðlabankinn næst? Hann hefur því miður engin tök á stöðunni “, segir Bjarni.

„Ég geri mér vel grein fyrir því að við eigum mikið undir því að verðbólga náist hér niður og að betra jafnvægi komist á í þjóðarbúskapnum. Aukinn útflutningur, t.d. áls, mun stuðla að því að náist en ég er hins vegar efins um að raunverulegt jafnvægi verði að veruleika við núverandi fyrirkomulag peningamála. Verði því ekki breytt mun efnahagur okkar áfram einkennast af óbærilegum sveiflum sem til lengri tíma litið mun skerða lífskjör okkar.“