Seðlabanki Íslands hefur keypt erlendan gjaldeyri af fjármálafyrirtækjum í þeim tilgangi stuðla að auknum stöðugleika fjármálakerfisins, auka gjaldeyrisforða Seðlabankans og þann hluta hans sem ekki er fenginn að láni erlendis frá. Bankinn keypti gjaldeyri fyrir um 24,6 milljarða króna (jafnvirði um 160 milljóna evra) auk þess að samið var um framvirk viðskipti sem námu um 47,9 milljörðum króna (jafnvirði 312 milljóna evra).

Í tilkynningu frá seðlabankanum kemur fram að í heild munu þessi viðskipti auka gjaldeyrisforða Seðlabankans á samningstímanum um 72,5 milljarða króna, jafnvirði um 472 milljóna evra. Kaup Seðlabanka Íslands eiga að draga úr gjaldeyrismisvægi fjármálafyrirtækjanna.

„Allt frá falli viðskiptabankanna í október 2008 hefur  misvægi milli erlendra eigna og skulda í efnahagsreikningum ýmissa innlendra fjármálafyrirtækja verið langt umfram æskileg mörk. Þetta misvægi eykur áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja og kallar á eiginfjárbindingu. Líkt og seðlabankastjóri greindi frá í ræðu sinni á ársfundi Seðlabanka Íslands í mars sl. hefur bankinn leitað leiða til að draga úr ofangreindum vanda með það að markmiði að koma fjármálakerfinu í betra jafnvægi á nýjan leik og stuðla þannig að fjármálastöðugleika.

Í þessu skyni bauð Seðlabankinn fjármálafyrirtækjum til viðræðna um samninga með það að markmiði að gjaldeyrismisvægi vegna hreinnar eignar í erlendum gjaldmiðlum sem skila tekjum í erlendri mynt verði ekki meira en sem nemur 15% af eigin fé þeirra. Undir lok ársins átti Seðlabankinn gjaldeyrisviðskipti vegna þessa. Annars vegar keypti bankinn gjaldeyri sem nam um 24,6 milljörðum króna (jafnvirði 160 milljóna evra). Hins vegar samdi hann um framvirk viðskipti sem námu um 47,9 milljörðum króna (jafnvirði 312 milljóna evra). Í heild munu þessi viðskipti auka gjaldeyrisforða Seðlabankans á samningstímanum um 72,5 milljarða króna (jafnvirði 472 milljóna evra).

Ofangreindar aðgerðir stuðla að auknum stöðugleika fjármálakerfisins, auka gjaldeyrisforða Seðlabankans og þann hluta hans sem ekki er fenginn að láni erlendis frá.  Að meðtöldum reglulegum vikulegum kaupum á gjaldeyri sem hófust undir lok ágúst keypti Seðlabanki Íslands gjaldeyri á millibankamarkaði á árinu sem nam um 30 milljörðum króna en þar telst ekki með sá gjaldeyrir sem fjármálafyrirtæki munu afhenda Seðlabankanum með framvirkum viðskiptum á komandi árum,“ segir í tilkynningu.