Seðlabanki Íslands hætti að reikna og birta svonefnda gengisskráningarvísitölu nú um áramótin, sem hingað til hefur verið þekkt sem opinber gengisvísitala. Hins vegar verður haldið áfram að birta á heimasíðu bankans fjórar aðrar gengisvísitölur svo sem gert hefur verið sl. tvö ár.

Þetta kemur fram á vef Seðlabankans.

Þar kemur fram að ákveðið hefur verið að breyta grunni einnar þeirra fjögurra þannig að 2. janúar 2009 taki hún sama gildi og gengisskráningarvísitalan.

Segir Seðlabankinn að þannig myndist framhald þeirrar talnaraðar sem oft er vitnað til þegar fjallað er um gengi. Sú sem varð fyrir valinu nefnist gengisvísitala með þröngri viðskiptavog.

Seðlabankinn segir að af vísitölunum fjórum er hún líkust gömlu vísitölunni að uppbyggingu.

Sjá nánar vef Seðlabankans.