Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, fullyrðir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna í dag að útsendarar Seðlabanka Íslands séu nú í London til þess að kynna mögulega skuldabréfaútgáfu fyrir fjárfestum.

Þetta kemur fram í frétt Bloomberg um nýfengna heimild ríkissjóðs til 500 milljarða króna lántöku til styrkingar gjaldeyrisforðans og eflingu útgáfu innlendra ríkisververðbréfa.

Í fréttinni er haft eftir Ingólfi að útsendarar seðlabankans hafi verið að kynna málin fyrir mögulegum fjárfestum í London í gær og í dag. Hann segist fastlega gera ráð fyrir að til tíðinda dragi á næstu vikum. Bloomberg leitaði svara hjá Seðlabanka Íslands en bankinn neitaði að tjá sig.

Hann segir það vilja ríkisstjórnarinnar að heimildin verði nýtt og að seðlabankinn muni verða við því.

Bloomberg hefur eftir öðrum sérfræðingi, Bjarke Roed-Fredriksson hagfræðingi hjá Nordea í Kaupmannahöfn, að heimildin styrki trúa manna á íslensku hagkerfinu. Hann bendir hinsvegar á að verði hún nýtt muni það verða dýrt lán enda má flestum vera ljóst að aðstæður á fjármálamarkaður eru þeim sem leita sér að fé ekki hagstæðar.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins þá kann slík lántaka að verða til þess að lánshæfismat íslenska ríkisins muni versna. Ætla má að samhengi sé á milli skuldatryggingaálags íslenska ríkisins og álagsins á íslensku bankanna. Verri lánshæfiseinkunn ríkisins myndi því leiða til þess að skuldatryggingaálagið myndi jafnframt versna.

Hér kann þó um tvíeggja sverð verið að ræða. Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu á dögunum þá telja sérfræðingar Royal Bank of Scotland að Skuldatryggingaálag íslensku bankanna mun verða að lágmarki 100 til 150 punktum hærra en álagið á íslenska ríkinu, svo lengi sem efasemdir eru um að Seðlabankinn geti sinnt hlutverki sínu sem lánveitandi til þrautavara.

Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að verði 500 milljarða króna heimildin fullnýtt muni gjaldeyrisvarasjóðurinn þrefaldast: Leiða má líkum að því að slík aukning ætti að einhverju leyti kveða niður áhyggjur um mögulegt getuleysi seðlabankans til þess að gegna hlutverki lánveitanda til þrautavara.

Sjá frétt Bloomberg.