Seðlabankinn í Japan tilkynnti í dag að hann ætlaði að hefja aftur kaup á hlutabréfum. Nikkei hlutabréfavísitalan hækkaði um 2,7% í kjölfar tilkynningarinnar en lækkaði svo aftur og endaði daginn með 0,6% lækkun, að því er segir í frétt MarketWatch.

Hlutabréfin sem seðlabankinn hyggst kaupa eru í bönkum sem eru yfir tiltekinni stærð, með lánshæfismatið BBB- eða hærra. Þá þarf hlutabréfaeign þeirra að vera meira en helmingur af Tier-1 hluta eiginfjárhlutfallsins, CAD.

Ætlunin er að verja allt að 1000 milljörðum jena í kaupin og að þau standi yfir út apríl á næsta ári. Bréfin verði svo seld fyrir haustið 2017. MarketWatch hefur eftir sérfræðingi hjá Masafumi Yamamoto í Tókýó að þetta ætti að hjálpa bankageiranum, en bein áhrif á Nikkei vísitöluna ættu að verða takmörkuð þar sem fjárhæðin sé ekki mjög há.

Seðlabankinn hefur ekki stundað kaup á hlutabréfum frá  því í september 2004 en þá höfðu þau staðið yfir í 22 mánuði. Hann hóf sölu hlutabréfanna í október 2007 en hætti sölunni síðasta haust.