Íslandsbanki hefur gert gjaldmiðlasamning við Seðlabanka Íslands sem miðar að því að leiðrétta gjaldeyrismisvægi vegna eigna í bókum Íslandsbanka sem eru í erlendum gjaldmiðlum og skila tekjum í erlendri mynt. Samningurinn felur í sér að á næstu fimm árum mun Íslandsbanki greiða Seðlabanka Íslands jafnvirði 48 milljarða íslenskra króna í erlendri mynt. Seðlabanki Íslands mun á sama tíma greiða Íslandsbanka sömu fjárhæð í íslenskum krónum.

Þetta segir í frétt á vef Íslandsbanka.

Seðlabankinn tilkynnti í gær að hann hafi undir lok síðasta árs gert samninga við fjármálafyrirtæki um kaup á gjaldeyri í þeim tilgangi að draga úr gjaldeyrismisvægi þeirra. Gjaldeyrisforði Seðlabankans mun stækka um sem nemur 72,5 milljörðum króna, þar af 48 milljarða króna gjaldeyrir frá Íslandsbanka samkvæmt tilkynningu bankans.