Íslensku skuldabréfin, sem Seðlabankinn og ríkið kaupa af seðlabankanum í Lúxemborg, eru að stærstum hluta greidd með skuldabréfi í evrum útgefnu af ríkissjóði uppá 402 milljónir evra. Það endurgreiðist á fimmtán árum.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði vextina breytilega með álagi á líkum kjörum og Norðurlöndum buðu Íslandi í sínum lánapökkum í tengslum við efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þessu til viðbótar greiðir ríkið 35 milljónir evra í reiðufé og sex milljarða króna í reiðufé.

Aðspurður um gengi í þessum viðskiptum, þar sem verið er að kaupa krónueignir fyrir erlendan gjaldeyri, sagði Már að það væri ekkert gengi skráð í þessum viðskiptum. Þau færu ekki í gegnum skipulagðan markað. Hins vegar kom fram á fundinum að miðað við þær forsendur sem gefnar væru upp væri hægt að finna út að gengi krónunnar væri um 250 gagnvart evrunni í viðskiptunum.

Það er í samræmi við svokallað aflandsgengi krónunnar sem hefur verið skráð hjá Seðlabanka Evrópu. Því má segja að ríkið hafi ekki notað seðlabankagengið í þessum viðskiptum og sagði Már ríkið njóta þess í þessum viðskiptum sem engum öðrum byðist.

Þetta þýðir í rauninni að ríkið er að fá 250 krónur fyrir hverja evru sem eru mun hagstæðari kjör en ef seðlabankagengið er notað þar sem evran er skráð á rúmlega 160 krónur. Það er mun hagstæðara fyrir skattgreiðendur þótt auðvitað líti það skringilega út frá sjónarhóli Seðlabankans sem neyðir alla, með gjaldeyrishöftum, að eiga viðskipti á skráða genginu.