Meirihluti heimila í landinu mun að öllum líkindum standast þá áraun sem á þeim dynur nú vegna hækkana á afborgunum húsnæðis- og bifreiðalána, þrátt fyrir að vera með neikvæða eiginfjárstöðu.

Þetta kom fram á kynningarfundi starfshóps Seðlabanka Íslands sem safnað hefur saman og unnið úr gögnum um áhrif fjármálakreppu á efnahag heimilanna.

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur í Seðlabankanum, kynnti niðurstöður starfshópsins og sagði tölur sýn að um 90% heimila í Bandaríkjunum standist slíka áraun miðað við sömu aðstæður.

Þorvarður sagði aðspurður að ekki væri hægt að segja til um hversu mörgu heimili muni lenda í verulegum vandræðum. Það veltur á atvinnumöguleikum og tekjum á árinu. Meirihluti heimila væri þó í þeirri stöðu að geta bjargað sér.

Þó var tekið fram á kynningarfundinum að verulegar líkur væru á að heimili lendi í greiðsluþroti þegar þau eru með háa greiðslubyrði í hlutfalli við tekjur og þrönga eiginfjárstöðu á sama tíma og þau lenda í áfalli vegna tekjumissis, atvinnuleysis, hækkun greiðslubyrðar eða erfiðra fjölskylduaðstæðna.

Í skýrslu, sem starfshópurinn gaf út í dag, kemur fram að tæplega 20% heimila eru nú með neikvæða eiginfjárstöðu, þ.e. skuldir vegna húsnæðislána og annarra lána á móti eignum (miðað við fasteignamat).

Þá eru um 75% af heimilum landsins eru með greiðslubyrði undir 100 þúsund krónum vegna húsnæðislána en 60% heimila í þröngri eiginfjárstöðu skulda minna en 19 milljónir króna.

Þá kemur einnig fram að heimili með erlend lán hafa tilhneigingu til að vera skuldsettari en þau sem eru með lán í krónum.

Sjá nánar á vef Seðlabankans en þar má einnig nálgast niðurstöðurnar á powerpoint skjali.